Aftur í fréttir
July 18, 2025
Expert opinion
Markaðslausnir í loftslagsmálum: Hvað getum við lært af Japan?

Japan undirbýr landsbundið ETS – hvað getum við lært?

 

Japan hefur ákveðið að taka stórt skref í loftslagsmálum með innleiðingu landsbundins viðskiptakerfis fyrir losunarheimildir (ETS), sem tekur gildi árið 2026. Ný lög sem samþykkt voru í maí 2025 skylda stærstu losunaraðila til þátttöku og er ætlað að styðja við markmið Japans um kolefnishlutleysi árið 2050.

 

Stórt kerfi með skýr markmið

Japanska ETS kerfið mun ná til um 60% af allri losun í landinu, eða yfir 1 milljarði tonna CO2e árlega. Áætlað er að 300-400 fyrirtæki taki þátt frá upphafi, fyrst og fremst í orku- og þungiðnaði.

Þetta gerir kerfið að öðru stærsta ETS kerfi í Asíu, á eftir Kína og setur Japan í hóp stærstu og metnaðarfyllstu ríkja heims þegar kemur að markaðslausnum í loftslagsmálum.

Til samanburðar nær ETS kerfi Kína um 4 milljarðar tCO2e árlega með um 2.200 aðila. Evrópusambandið rekur hins vegar eitt það rótgrónasta og áhrifamesta viðskiptakerfi heims, sem nær yfir 1,9 milljarðar tCO2e árlega og rúmlega 11.000 aðila í fjölmörgum geirum.

Kalifornía, sem oft hefur verið leiðandi í grænni stefnumótun í Bandaríkjunum er með kerfi sem nær til 360 milljón tonna og Suður-Kórea- sem var eitt af fyrstu ríkjum í Asíu til að innleiða lögbundið ETS – stýrir nú kerfi sem tekur til um 700 milljónum tCO2e með um 690 aðilum.

 

Frá vali að skyldu

Japanska ETS kerfið er áfangaskipt, með skýrum aðlögunartíma og auknum kröfum eftir því sem á líður.Grunnurinn að kerfinu er ný útgáfa af svokölluðum GX-lögum sem samþykkt voru í maí 2025. Samkvæmt þeim eru öll fyrirtæki sem hafa losað yfir 100.000 tonn af CO2 á ári, að meðaltali síðustu þrjú ár, skuldbundin til þátttöku frá og með fjárlaga árinu 2026.

Frá og með 2026 verður kerfið formlega lögbundið/áskilið fyrir alla stærstu losunaraðila og árið 2026 tekur við næsta stig: strangari kröfur um vottun og úttektir, möguleg útvíkkun á geirum og aukin áhersla á uppboð í stað heimildarúthlutunar.

 

Heimild til notkunar kolefniseininga –afhverju skiptir það máli?

 Ein af athyglisverðustu hliðum japanska ETS-kerfisins er sú að fyrirtækjum er heimilt að uppfylla hluta skuldbindinga sinna með kaupum á vottuðum kolefniseiningum. Allt að 10% af árlegri losun fyrtækis má mæta með slíkum einingum, að því gefnu að þær standist vottunarkröfur og séu hluti af viðurkenndum kerfum.

Annars vegar geta japönsk fyrirtæki keypt J-einingar sem eru einingar úr innlendum verkefnum sem fela í sér kolefnisbindingu, t.d. skógrækt, orkusparnað eða endurnýjanlega orku. Hinsvegar má nýta JCM-einingar úr alþjóðlegum verkefnum þar sem japönsk tækni er nýtt í þróunarríkjum og staðfest er að raunverulegur samdráttur hafi átt sér stað.

Mikilvægt er þó að benda á að allar einingar verða að vera vottaðar af þriðja aðila og samþykktar af japönskum stjórnvöldum. Vonast er til að þessi sveigjanleiki styrki markaðskerfið, auki hagkvæmni og styðji við alþjóðlega samvinnu í loftslagsmálum. Sýnir þetta hvernig markaðskerfi og mótvægisaðgerðir geta farið saman.

Hver er staðan í Evrópu?

Frá 2020 hefur fyrirtækjum í Evrópu ekki verið heimilt að nota vottaðar kolefniseiningar til að uppfylla skuldbindingar sínar í ESB ETS.

Innan ESB ETS eru það eingöngu úthlutaðar losunarheimildir sem eru viðurkenndar til kvótauppgjörs. Þessar heimildir eru gefnar út af stjórnvöldum og dreift til fyrirtækja í ákveðnum geirum, annaðhvort frítt eða í gegnum uppboð. Allar heimildir eru skráðar og vistaðar í sameiginlegu rafrænu kerfi ETS-kerfisins, Union Registry, sem tryggir vottun, rekjanleika og reglubundið eftirlit.

Aðrar kolefniseinignar,eins og þær sem verða til við skógrækt, votlendisendurheimt eða endurnýjanlega orku utan ETS, hafa sem stendur ekki hlutverk innan þessa kerfis.  

Árið 2022 lagði framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins fram tillögu að nýju regluverki sem kallast Carbon Removal Certification Framework (CRCF). Markmiðið með þessu kerfi er að skapa sameiginlega og trausta aðferð til að votta kolefnisbindingu, sérstaklega bindingu úr landnýtingar verkefnum eins og skógrækt, endurheimt votlendis, jarðvegsvernd og föngun kolefnis sem er síðan komið fyrir með varanlegum hætti.

CRCF var samþykkt á Evrópuþinginu árið 2024 og er nú í þróun, með tilliti til bæði vísindalegra staðla og hagrænna sjónarmiða. Tilgangurinn er að tryggja að binding mótvægisaðgerða sé varanleg, rekjanleg, gagnsæ og raunveruleg. Þannig að slíkar aðgerðir standist ströngustu kröfur um gæði og árangur.

Miklar vangaveltur eru nú uppi um frekari þróun á CRCF með tilliti til EU ETS en öflugar raddir hafa hljóðað undanfarin ár að hleypa kolefnisbindingarverkefnum sem nýta tæknilausnir, t.d. Climeworks og Carbfix, inn í ETS kerfið. Stóra spurningin sem vonandi verður svarað á næstu misserum er hvort og hvernig kolefniseiningar frá bindingarverkefnum öðlist hlutverk í ETS kerfi Evrópu, sambærilegt því sem er að gerast í Japan.